Á dögunum voru haldnir þjóðlegir dagar, en þeir eru orðnir að árlegum viðburði hjá okkur hér í Víkurskóla. Þá er unnið með ýmislegt sem tengist íslenskum hefðum, t.d. þjóðsögur, lopapeysumynstur, hjátrú og kveðskap. Þjóðlegum dögum lauk svo með hinu árlega þorrablóti Víkurskóla sem fór fram með hefðbundnu sniði. Nemendur og starfsfólk nutu þess að borða þorramat, hlustuðu á annál frá nemendaráðinu, sungu þorralög og auðvitað lauk deginum með spilakeppni þar sem yngri nemendur spiluðu ólsen ólsen og eldri nemendur spiluðu félagasvist.
Sigurvegari í ólsen ólsen keppninni var Laufey Waagfjörð, en það var Laufey Sól sem stóð uppi sem sigurvegari í félagsvist.
Á þorrablótinu voru einnig veitt verðlaun fyrir besta vísubotninn, frumlegasta vísubotninn og þann fyndnasta.
Niðurstöðurnar voru svohljóðandi:
Besti vísubotninn – Bryntýr Orri
Hákarl, harðfisk, rúgbrauð, smér
hámum við í okkur.
Hárið fallegt er á þér
liggur síður lokkur.
Frumlegasti vísubotninn – Bragi Þór
Veðurofsa, vind og él
verðum öll að þola.
Við gætum skriðið inn í skel
og verið þar að vola.
Fyndnasti vísubotninn – Ingólfur Waagfjörð
Brosandi við þorra blótum
börnin spila kát og glöð.
Gamla fólkið drekkur öl
og dansa alveg rosa hröð.