Göngum í skólann

 

Hvatningarverkefnið ,,Göngum í skólann’’ hófst í dag, 6. september. Víkurskóli tekur að sjálfsögðu þátt enda verkefnið hluti af stefnu skólans sem Heilsueflandi skóla. Þessi dagur er að verða hefðbundinn í skólstarfinu. Nemendur og starfsmenn hittust á sal  þar sem verkefnið var kynnt og nemendur hvattir til, þeir sem hafa tök á að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Eins munu kennarar nýta fjölmörg tækifæri sem gefast næsta mánuðinn til þess að færa kennsluna út fyrir veggi skólans og þá með tilheyrandi hreyfistundum. Eftir  kynningu á sal tóku þau Guðjón Örn (10.b) og Maja (1.b) að sér að draga fána Heilsueflandi skóla að húni. Að því búnu var haldið á Syngjandann sem er útikennslustofa Víkurskóla þar sem þau Katrín og Adam íþróttakennarar skólans skipulögðu skemmtilega leiki fyrir allan hópinn.

Vettvangsferð að Hjörleifshöfða

Nemendur í 1.-6. bekk héldu í dag í vettvangsferð að Hjörleifshöfða sem að var hluti af verkefni sem unnið er að í Drangamixi í Víkurskóla. Þess má geta að nánast allir nemendur hópsins gengu upp að haugnum sem að Hjörleifur landsnámsmaður er talinn grafinn og skein gleði úr hverju andliti. Veðrið lék við okkur og sáu nemendur sjálfir um myndatökur á meðfylgjandi myndum.

Skólaslit Víkurskóla

Víkurskóla var slitið við hátíðalega athöfn föstudaginn 28. maí s.l. Að þessu sinni voru sex nemendur útskrifaðir úr 10. bekk og 7 nemendur úr forskóladeild. Við sendum þeim okkar bestu framtíðaróskir. Fyrir hönd skólans sendi ég nemendum, foreldrum og starfsfólki bestu sumarkveðjur. Jafnframt sendi ég samstarfsaðilum og velunnurum Víkurskóla kærar kveðjur með þakklæti fyrir samstarfið á skólaárinu.

Skólastjóri

Sniðin í Víkurfjöru mæld upp í tíunda skipti í Víkurfjöruverkefninu

Víkurfjöruverkefni Kötlu jarðvangs, Víkurskóla og Kötluseturs hélt áfram síðastliðinn miðvikudag, þegar nemendur 9. og 10. bekkjar Víkurskóla mældu sniðin fimm í Víkurfjöru og staðsetningu fjörukambsins. Er þetta tíunda mæling nemenda á sniðunum í Víkurfjöru og í þriðja skipti sem fjörukamburinn er mældur, en hann er mældur einu sinni á ári á meðan sniðin eru mæld fjórum sinnum. Mælingarnar gengu vel í annars ágætu veðri, og þá var tíminn einnig nýttur í að skoða lítillega nýja varnargarðinn sem er óðum að rísa austan við Vík. Hægt er að lesa frekar um Víkurfjöruverkefnið hér ásamt því að skoða niðurstöður nemenda, og þá má sjá ljósmyndir af mælingum nemenda hér.

Háskóli Íslands í heimsókn

Háskólalestin kom í heimsókn í Víkurskóla þann 4. maí s.l. Að þessu sinni gátu nemendur í 5.-10. bekk valið úr fimm smiðjum, efnafræði, eðlisfræði, japönsku, forritun og sjúkraþjálfun. Hver smiðja var 90 mínútur að lengd og allir gátu valið sér þrjár smiðjur. Nemendur úr Kirkjubæjarskóla komu að þessu tilefni í heimsókn og tóku þátt. Í Háskólalestinni eru valin námskeið úr verkefninu Háskóli unga fólksins fyrir grunnskólanemendur, og jafnvel leikskólabörn og framhaldsskólanemendur. Lögð er áhersla á lifandi vísindamiðlun til ungs fólks og fjölbreytta dagskrá fyrir alla fjölskylduna. Frábær viðburður í skólastarfinu og skemmtileg tenging þessara skólastiga.

Ísgerð hjá 1. -6. bekk

Nemendur í 1.- 6. bekk í Víkurskóla fóru í útikennslu í Syngjanda. Þar var kveiktur upp í eldstæðinu. Verkefnið var að nota ísmola í ísgerð. Virkilega skemmtilegt verkefni þar sem nemendur bjuggu til sinn eiginn ís og fengu sér svo að sjálfsögðu að smakka. Sjón er sögu ríkari.

 

 

 

 

 

 

Heimsókn frá samstarfsskóla í Erasmus+

Við fengum heimsókn frá samstarsskóla okkar I Liceum Ogólnokształcące im. Juliusza Słowackiego í Przemysl, Póllandi. Hingað komu tveir kennarar, þær Tamara og Renata og tvær stúlkur, Amelia  Og Ewa. Þær  tóku þátt í skólastarfinu í þrjá daga. Annar kennarana ,Tamara Ryzner, hefur áður komið til okkar í heimsókn í öðru samstarfsverkefni. Eins og alltaf lærdómsríkt að fá gesti í heimsókn, bæði fyrir nemendur og kennara. Victoria Reinholdsdóttir verkefnastjóri Erasmus+ hélt utan um alla þræði og móttöku hópsins.

Undankeppni Raddarinnar

Undankeppni fyrir upplestrarkeppnina Röddina var haldin í Víkurskóla föstudaginn 21. apríl. Fjölskyldum keppenda var boðið að koma og stóðu allir keppendur sig með prýði.
Leikar fóru þannig að Óliver Ísar og Sigurgeir Máni eru fulltrúar Víkurskóla í lokakeppninni. Andri Berg er varamaður.

Mánabraut 3-5
870 Vík
Sími: 487-1242
Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is