Víkurskóli sími : 487-1242 netfang : vikurskoli@vikurskoli.is / Skólabílstjórar Ingi Már : 894-9422 – Hjördís Rut: 861-0294
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is
Þorrablót Víkurskóla.
/in frettir /by VikurskoliEin af rótgrónum hefðum Víkurskóla er að halda þorrablót þar sem nemendur og starfsmenn gera sér glaðan dag saman. Krakkarnir í 0.-4. bekk hófu daginn á því að útbúa skemmtilega víkingahjálma og nemendur í 3.-4. bekk lærðu að skrifa nafnið sitt með rúnum og sumir skreyttu sína hjálma þannig. Nemendur í 9.-10. bekk lögðu á borð fyrir þorramatinn en það var sameiginlegt borðhald fyrir alla í matstofu skólans. Krakkarnir voru dugleg að smakka og hákarlinn er að verða vinsælli! Að afloknu borðhaldi komu allir saman á sal og sungu skemmtileg lög sem áttu við tilefnið. Þar á meðal þorralag Víkurskóla. Nemendaráð Víkurskóla flutti annál ársins sem settur var saman úr þeim viðburðum sem þeim þóttu merkilegust á árinu. Að því búnu var tekið til við spilamennsku. Nemendur í 5.-10. bekk spiluðu félagsvist og nemendur í 1.-4. bekk spiluðu Ólsen-Ólsen. Forskólanemendur fóru í frjálsan leik. Veitt voru verðlaun í hvorum flokki og það voru Þær Anastazja í 10. bekk og Gréta Björk í 4. bekk sem voru hlutskarpastar að þessu sinni. Sannarlega skemmtilegur og lærdómsríkur skóladagur.
Dans.
/in frettir /by VikurskoliJón Pétur Úlfljótsson danskennarinn okkar kom í annað sinn á skólaárinu nú í janúar. Danskennslan er alltaf vel þegið uppbrot í skólastarfið og partur af námi barna samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Að þessu sinni kenndi Jón Pétur krökkunum að búa til sinn eigin dans og það var vinsælt. Námskeiðinu lauk með opinni æfingu þar sem foreldrar og forráðamenn fjölmenntu að vanda.
Heimsókn á Hjallatún.
/in frettir /by VikurskoliNemendur í 1.-6.bekk Víkurskóla heimsóttu Hjallatún nú á aðventunni og sungu fyrir þau jólalög. Brian spilaði undir fyrir okkur og nutum við stundarinnar og veitinganna sem okkur voru boðnar eftir sönginn.
Íþróttadagur Víkurskóla.
/in frettir /by VikurskoliSkemmtileg hefð að brjóta upp skólastarfið og efla heilsuhliðina. Nemendur unnu á stöðvum 20 mínútur í senn og brosið skein af hverju andliti. Myndirnar tala sínu máli.
Strandmælingar í Víkurfjöru
/in frettir /by kennariMánudaginn 5. desember fóru nemendur í 9. og 10. bekk í Víkurfjöru í strandmælingar. Þau tóku ljósmyndir í fjörunni, tóku loftmyndir með dróna og mældu hvert snið í fjörunni.
Þetta er í fyrsta skipti sem mælingar af þessari gerð hafa verið gerðar á Íslandi. Því mætti segja að Víkurskóli, ásamt Kötlu jarðvangi, sé að ryðja brautina fyrir framtíðarrannsóknir þar sem þessar mælingar munu hafa mikið vægi, t.d. við ákvarðanatöku um byggð við strandir landsins.
Nú er búið að gera nokkrar mælingar og strax má sjá samband milli vindáttar og rofs í fjörunni. Athyglisvert verður að fylgjast með niðurstöðum næstu ára.
Heimasíða verkefnisins er í vinnslu og verður birt innan skamms.
Rithöfundur í heimsókn 1. desember á fullveldisdegi Íslands.
/in frettir /by VikurskoliEinn af liðum jóladagkrárinnar þetta árið var að fá Lilju Magnúsdóttur rithöfund sem búsett er á Kirkjubæjarklaustri í heimsókn. Lilja hefur nýlega gefið út barnabókina Gaddavír og gotterí sem hún las úr fyrir nemendur í 1.-6. bekk. Sannarlega ánægjuleg stund og við þökkum Lilju kærlega fyrir komuna.
Jóladagskrá Víkurskóla
/in frettir /by VikurskoliHér er yfirlit yfir það helsta sem er á döfinni fram að jólaleyfi nemenda.
Jóladagskrá 2020
Dagur íslenskrar tungu – kaffihúskvöld Víkurskóla
/in frettir /by VikurskoliVíkurskóli heldur upp á Dag íslenskrar tungu með árlegu kaffihúskvöldi, að þessu sinni 17. nóvember sl. Það var afar ánægjulegt að sjá hversu margir komu á þennan árlega viðburð sem við höfum þurft að fella niður sl tvö ár. Nemendur sáu um að baka, skreyta og raða upp með starfsmönnum skólans. Nemendur í 3.-6. bekk lásu upp ljóð og nemendur í forskóla og 1.-6. bekk sungu. Aðalgestur kvölsins var rithöfundurinn og ljóðskáldið góðkunna Gerður Kristný. Í alla staði vel heppnaður viðburður.
Vígsla hreystibrautar við Víkurskóla
/in frettir /by VikurskoliÞann 9. nóvember var hreystibraut formlega vígð við Víkurskóla, rétt rúmu ári eftir að hugmyndin kviknaði. Margir lögðu verkefninu lið með fjárstuðningi og fyrir það er skólinn mjög þakklátur sem og sveitarfélaginu fyrir að gera verkefnið að veruleika. Andrés Guðmundsson skólahreystifrömuður og hönnuður brautarinnar kynnti brautina og Einar Freyr sveitarstjóri flutti stutt ávarp. Það voru svo Björn Vignir Ingason formaður nemendafélags Víkurskóla og Björn Þór Ólafsson oddviti sveitarstjórnar sem klipptu á borðann. Sannarlega góð viðbót við íþróttamannvirki og afþreyingaraðstöðu í sveitarfélaginu. Hreystibrautin mun að sjálfsögðu nýtast öllum í samfélaginu. Það er jafnframt gaman að segja frá því að þetta er fyrsta hreystibrautin sem sett er upp á Suðurlandi.
Ólympíuhlaupið 2022.
/in frettir /by VikurskoliEins og hefð er fyrir þá taka nemendur þátt í hvatningarverkefni ÍSÍ, Ólympíuhlaupinu. Að þessu sinni lék veðrið við okkur nánast logn og heiður himinn. Katrín íþróttakennari sá um upphitun fyrir hlaupið sem vakti lukku. Allir nemendur og starfsmenn tóku þátt í hlaupinu og stóðu sig með sóma. Krakkarnir máttu velja um 3 vegalengdir; 2,5 km, 5 km og 10 km. Að þessu sinni ákváðu óvenju margir nemendur að hlaupa 10 km. Frábær útivist og samvera.
Heimsókn frá Heimili og skóla.
/in frettir /by VikurskoliFimmtudaginn 21. september komu þær Bryndís Jónsdóttir og Eyrún Eva Haraldsdóttir sérfræðingar samtakanna Heimilis og skóla til okkar í Víkurskóla. Þær voru með fræðslu fyrir nemendur í 5.-10. bekk, og alla starfsmenn. Síðdegis var fræðslufundur fyrir foreldra og var hann mjög vel sóttur. Þær stöllur fræddu um ábyrga notkun á netinu og hvað ber að varast þar og fóru vel yfir mikilvægi öflugs og góðs foreldrasamstarfs. Stjórn foreldrafélagsins sá um veitingar. Afskaplega vel heppnuð heimsókn en þessi viðburður er samstarfsverkefni Skólaráðs og Foreldrafélags Víkurskóla.
Göngum í skólann.
/in frettir /by VikurskoliHvatningarverkefnið ,,Göngum í skólann’’ hófst í dag 7. september. Víkurskóli tekur að sjálfsögðu þátt enda verkefnið hluti af stefnu skólans sem Heilsueflandi skóla. Nemendur og starfsmenn hittust á sal eftir hádegismatinn þar sem verkefnið var kynnt. Að því búnu tóku yngsti og elsti nemandi skólans, þeir Óskar Freyr og Eyjólfur Lárus að sér að draga fána Heilsueflandi skóla að húni. Þegar því var lokið fóru allir nemendur í 1.-10. bekk í skemmtilegan ratleik á skólalóðinni. Það má því segja að allir hafa fengið góða hreyfingu í fínu veðri. Verkefnið mun halda áfram næsta mánuðinn og hreyfing verður eins og alltaf í forgrunni.
Haustferð í berjamó.
/in frettir /by VikurskoliNemendur í 1.-10. bekk ásamt starfsmönnum og kennurum fóru í árlega haustferð í dag, mánudaginn 5. september. Farið var í berjamó á Péturseyjaraura og var berjasprettan mjög fín og flestir komu heim með ber í dós. Veðrið var upp á það allra besta, blíðuveður og 19 stiga hiti. Við þökkum bændum í Eystri-Pétursey fyrir berjatínsluleyfið.
Skólaslit Víkurskóla.
/in frettir /by VikurskoliSkólaslit Víkurskóla fóru fram 30. maí sl. Þá útskrifðustu 7 nemendur úr 10 bekk. Þau stóðu sig öll með sóma og fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Að venju fengu nemendur birkiplöntu að gjöf frá skólanum með hvatningu um að þau verði þrautseig í lífinu eins og birkið. Kvenfélögin í Mýrdal færðu útskriftarhópnum spjöld að gjöf sem geta nýst þeim vel þegar í framhaldssskólann og lífið er komið, því þau hafa að geyma leiðbeiningar um þvott á fatnaði, geymslu matvæla og mælingar. Kvenfélagskonum eru sendar bestu þakkir fyrir þessa hugulsemi við nemendur. Við óskum þessa öfluga hópi til hamingju með útskriftina og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.
Skólaferðalag til Vestmannaeyja.
/in frettir /by VikurskoliNemendur í 7. – 10. bekk fóru á dögunum í skólaferðalag til Vestmannaeyja. Lagt var af stað á mánudagsmorgni og gist í tvær nætur. Við vorum gríðarlega heppin með veður fyrri daginn en þrátt fyrir rigningu seinni daginn skemmtu allir sér konunglega.
Við fórum meðal annars í ratleik og ribsafari ásamt því að fara á rafmagnshjól, spranga og margt fleira.
Við heimkomu voru allir bæði þreyttir og glaðir eftir frábæra ferð.
Velunnari Víkurskóla kom í heimsókn í dag.
/in frettir /by VikurskoliEins og svo oft áður kom Guðný Guðnadóttir til okkar og færði nemendum peningagjöf annars vegar í ferðasjóð nemenda og hinsvegar í söfnun fyrir hreystibrautarverkefni Víkurskóla. Guðný hefur alltaf lagt áherslu á að tóbaksleysi og hvatt nemendur að vera reyklausir hún jafnframt lýsti ánægju sinni með þátttöku Víkurskóla í Skólahreysti. Það var Andri Berg Jóhannsson fulltrúi í nemendaráði Víkurskóla sem veitti þessum góðu gjöfum viðtöku. Kærar þakkir Guðný!
Geðlestin í heimsókn í Víkurskóla.
/in frettir /by VikurskoliÍ dag fengum við heimsókn frá Geðlestinni en það er verkefni á vegum Geðhjálpar. Árið 2020 setti Geðhjálp fram 9 aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang og eitt af áherslumálunum var setja fræðslu til ungmenna í forgang. Heimsóknin miðaðist við unglingadeildina en allir voru svo boðnir á örtónleika með Emmsjé Gauta og það var mikið fjör.
Hér er kynningartexti um þetta frábæra verkefni:
Markmiðið með Geðlestinni er að ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Lífið býður upp á allskonar áskoranir og stundum þurfum við að leita okkur aðstoðar við verkefni lífsins. Það er eðlilegasti hlutur í heimi að biðja um hjálp. Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra/aðstandendur eða kennara um það sem gengur á í amstri dagsins.
Það er mikilvægt að læra að stundum er lífið leiðinlegt og erfitt og það þurfi ekki alltaf að þýða eitthvað alvarlegt eða slæmt. Mótvindur verður skyndilega meðvindur og engin brekka er endalaus.
Það á að vera jafn eðlilegt að huga að geðheilsu sinni eins og líkamlegri heilsu. Það er hægt að gera með því að koma sér upp heilbrigðum venjum, líkt og að iðka þakklæti, eiga sér áhugamál, hreyfa sig, borða hollt, fá nægan svefn, treysta, eiga góða vini, rækta með sér seiglu og þrautseigju, vera umburðarlynd(ur), hjálpa öðrum, sýna tillitssemi, tjá sig svo fátt eitt sé nefnt.
Sinfóníuhljómsveit Suðurlands bauð nemendum á tónleika.
/in frettir /by VikurskoliÞann 9. maí sl. fóru nemendur í 1.-6. bekk á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Suðurlands. Tónleikarnir voru sameiginlegir með nemendum Kirkjubæjarskóla og fóru tónleikarnir fram í Kirkjuhvoli. Sannarlega frábært framtak og gaman að okkar nemendur fái að upplifa slíkan menningarviðburð og sjá sinfóníuhljómsveit á sviði. Dagskráin var að sjálfsögðu miðuð við aldur nemenda og í lokin sungu allir Á sprengisandi en það var einmitt ósk um að nemendur væru búnir að læra textann fyrir tónleikana. Það var blíðviðri þennan dag og eftir tónleikana bauð Gvendarkjör nemendum í ís. Kærar þakkir fyrir það.
Erasmus+ ferð til Þýskalands mars ’22
/in frettir /by VikurskoliVið fórum til Þýskalands dagana 7.-11. mars í Erasmus+ verkefni sem heitir ”Fit for life”. Fyrsta daginn fórum við í félagsheimilið Bürgersaal og kynntumst verkefninu betur. Síðan brutum við ísinn með nokkrum leikjum. Svo fengum við okkur mat í skólanum og tókum okkur frímínútur þar sem við spiluðum fótbolta. Eftir hádegi gengum við upp að kastalanum í Wörth, sem núna er dvalarheimili aldraða, og fengum svo að kynnast bænum betur. Síðan fórum við aftur út í Bügersaal og unnum þar verkefni sem fjallaði um kolefnisspor og ábyrgum neysluvenjum. Í frítímanum spiluðum við skittles sem er tegund af keila. Dagin eftir keyrðum við til Regensburg og fengum okkur stuttan göngutúr í kringum Regensburg þar sem við sáum gamlar byggingar og dómkirkju og fengum leiðsögn frá einum af þýsku kennurunum henni Karen. Svo fórum við í sögusafn sem heitir Museum of Bavarian history. Eftir það var farið í rafrænan ratleik byggður á heimsmarkmið sameinuðu þjóðanna, þar sem ratað er eftir gps og notað sérstakt app þar sem spurningar um ýmis viðfangsefni eru svaraðar á hvern gps-punkti. Að því loknu var borðaður hádegismatur og fengið sér ís. Svo fengum við frítíma til að ganga um Regensburg og fara í búðir síðan var leiðinni haldið heim og farið í félagsmiðstöð þar sem við fórum í fullt af hópleikjum. Síðasta daginn fórum við til Erding og fórum á safn sem var með sýningu um loftslagsmál og kolefnisspor og þar á eftir fengum við okkur hádegismat. Eftir mat skelltum við okkur í BMW – safnið í Munchen og skoðuðum flotta bíla auk þess sem framleiðendur voru með sýningu um það hvernig þau eru markvisst að vinna að gera framleiðslu sína umhverfisvænni. Að lokum röltum við um Olympic park sem var byggður upp fyrir sumar ólympíuleikana 1955, áður en var haldið heim til Wörth. Það kvöld var komið að kveðjustund þar sem við borðuðum kvöldmat saman á gistihúsinu og tókum við gjöfum. Svo lögðum við af stað snemma að morgni aftur heim til Íslands.
Arnheiður, Jóhanna Ellen, Egill 10. bekkur
Ólympíþorpið í Munchen .
Bæjarrölt í Regensburg
Fræðslu- og menningarferð.
/in frettir /by VikurskoliFrábær fræðslu- og menningarferð að baki hjá nemendur í 1. – 6. bekk. Byrjuðum ferðina á því að heimsækja Lava Center á Hvolsvelli, skoðuðum þar eldfjalla- og jarðskjálftasýninguna sem var mjög áhugaverð. Því næst skoðum við hellana við Ægissíðu á Hellu þar sem við upplifðum einstakan ævintýraheim. Einnig var farið í sund á Hellu og þar var mikil gleði og kátína. Í lokin fengum við frábærar pítsur í Árhúsi áður en við lögðum heim á leið. Frábær ferð í alla staði bæði fróðleg og skemmtileg.
1. og 2. bekkur hafa í vetur verið í samskiptum við 1. og 2. bekk úr Laugalandsskóla í svokölluðu vinabekkjarverkefni. Þessi samskipti hafa vakið hjá þeim mikla gleði og ánægju og á dögunum kom loksins að því að bekkirnir gætu hisst. Víkurskóli heimsótti vini sína á laugalandi í síðustu viku og fóru m.a að skoða stæsta manngerða helli á Íslandi að Hellum sem að þótti heldur betur áhugaverður, einnig léku krakkarnir sér saman og enduðu svo daginn í sundi. Í liðinni viku kom svo Laugalandsskóli í heimsókn til okkar í Víkurskóla og fórum við með þeim um þorpið okkar sem að skartaði sínu fegursta í dásamlegu veðri. Við forum m.a og heimsóttum Hörpu í Kötlusetri sem að sagði okkur aðeins frá Kötlusetri og sýndi okkur svo Skaftfelling sem að þótti heldur betur áhugavert. Einnig forum við í ratleik um þorpið og Hjördís sagði öllum þjóðsöguna um Reynisdranga. Svona verkefni kemur inná annsi marga þætti skólastarfsins en hvað mikilvægast er hversu mikill styrkur það er í félagsfærni krakkana að kynnast nýjum krökkum, sýna þeim vinsemd, virðingu og hlýju sem að svo sannarlega einkenndi þessa daga. Frábært í alla staði!
Skólahreysti 2022.
/in frettir /by VikurskoliKeppnislið Víkurskóla stóð sig með prýði í undanúrslitum Skólahreysti sem fram fór 27. apríl í beinni útsendingu á Rúv og hafnaði hópurinn í 4 sæti riðilsins. Stuðningslið nemenda í 7.-10. bekk fylgdi sínu liði fast eftir og lét sitt ekki eftir liggja á óhorfendapöllunum. Keppnislið Víkurskóla skipaði, Arnfríður Mára, Egill, Patrik Örn, Kristófer Ek og Stephanie Ósk. Við óskum þessum glæsilega hópi til hamingju. Þjálfari liðsins í vetur er Katrín Waagfjörð íþróttafræðingur. Það er ekki sjálfgefið að svona lítill skóli eins og okkar geti tekið þátt viðlíka keppni og att kappi við miklu fjölmennari skóla. Nemendur Víkurskóla eru í dag 57 talsins.
Röddin, upplestrarkeppni.
/in frettir /by VikurskoliÞann 28. apríl fór fram lokakeppni Raddarinnar upplestrarkeppni 7. bekkinga. Keppnin fór að þessu sinni fram á Kirkjubæjarklaustri. Þar kepptu nemendur úr skólunum í Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu auk Vestmannaeyja í upplestri á texta og ljóðum. Keppendur Víkurskóla þær Íris Anna Orradóttir og Aníta Ósk Reynisdóttir stóðu sig með sóma og Íris Anna varð í 3. sæti í þessari lokakeppni.
Vorhreinsun í Víkurskóla.
/in frettir /by VikurskoliDaginn eftir vel heppnaða árshátíð Víkurskóla tóku nemendur og starfsfólk Víkurskóla sig til og fóru í allsherjar hreinsun á skólalóðinni. Eins og annars staðar í þorpinu hafði gífurlegt magn af sandi borist inn á lóðina í vetur og því ekki vanþörf á að bregðast við. Allir stóðu sig með miklum sóma og það er öruggt að einhver tonn af sandi voru fjarlægð. Ekki spillti nú fyrir að veðrið var dásamlegt og sannarlega einn af okkar fyrstu góðu vordögum. Eftir hádegið var svo farið í leiki á útilóðinni og sundlauginni áður en farið var í langþráð páskafrí. Það var gaman að hefja skólastarfið að nýju í dag í frábæru veðri með svona vel hreinsaða skólalóð. Myndirnar tala sínu máli.