Morgunstund í forskólanum

Krakkarnir í forskóladeildinni hlusta af mikilli athygli á sögulesturinn í upphafi dags sem er hluti af markvissri málörvun.

Við fengum gjöf

Þær mæðgur Margrét og Sif á Hótel Dyrhólaey komu færandi hendi á dögunum með glænýja og fína saumavél sem þær gáfu skólanum. Það er ómetanlegt fyrir skólann að eiga svona velunnara. Kærar þakkir

!

Dans, dans, dans

Fastir liðir í skólastarfinu og námi nemenda er að læra grunn í dansi. Við fáum Jón Pétur til okkar tvisvar yfir skólaárið sem er ómetanlegt. Að þessu sinn fór opna æfingin fram í Leikskálum þar sem fjölskyldum nemenda var boðið að koma og fylgjast með og taka þátt í skemmtilegu balli í lokin.

 

Andleg og líkamlega heilsa, fyrirlestur fimmtudaginn12. október klukkan 17

Næstkomandi fimmtudag fáum við til okkar áhugaverðan fyrirlestur fyrir allt skólasamfélagið. Í þessum fyrirlestri fer Einar Örn sjúkraþjálfari yfir mikilvægi hreyfingar og réttrar líkamsbeitingar þegar kemur að líkamlegri heilsu barna og unglinga. Einnig fer hann yfir áhrif orkudrykkjaneyslu á svefn og hversu skaðleg mikil neysla á þessum drykkjum getur verið.

Margrét Lára sálfræðingur og íþróttafræðingur fer yfir nokkra þætti sem að nemendur geta nýtt sér til að auka andlegt heilbrigði sitt. Hvernig nemendur geta byggt upp sjálfsmynd sína og verið þar með betur undirbúin til að takast á við streitu, mótlæti eða erfiðleika í leik og starfi. Einnig fer Margrét Lára yfir mikilvægi svefns og aðferðir til að auka svefngæði.

Þessi viðburður er samstarfsverkefni Skólaráðs og Foreldrafélags Víkurskóla.

 

Hugleiðsludagur unga fólksins, 9. október

Í dag 9. október  er árlegur hugleiðsludagur unga fólksins. Nemendur Víkurskóla tóku að sér að vera í forgrunni í myndbandi dagsins og tóku næstum allir nemendur skólans þátt. Við færum aðstandendum dagsins bestu þakkir fyrir frábært samstarf. Hér má sjá myndbandið:

Jafnframt er hér slóð inn á heimasíðu verkefnisins: https://www.hugleidsludagur.is/

Drangamix

Drangamix er heiti á þverfaglegu námi sem unnið er í 1.-6. bekk. Við veljum ákveðna þemu sem við vinnum með á fjölbreyttan hátt. Drangamix verkefnin eru mis stór. Þau geta verið allt frá fáeinum tímum upp í nokkrar vikur, eru allskonar og unnin eftir ólíkum leiðum. Fyrsta verkefnið sem við erum að vinna með er átthagafræði þar sem við fræðumst m.a. um náttúru,  gróðursvæði og  fugla í Mýrdalshreppi. Þetta eru skemmtileg viðfangsefni þar sem allir fá að blómstra á sínum forsendum.

Göngum í skólann

 

Hvatningarverkefnið ,,Göngum í skólann’’ hófst í dag, 6. september. Víkurskóli tekur að sjálfsögðu þátt enda verkefnið hluti af stefnu skólans sem Heilsueflandi skóla. Þessi dagur er að verða hefðbundinn í skólstarfinu. Nemendur og starfsmenn hittust á sal  þar sem verkefnið var kynnt og nemendur hvattir til, þeir sem hafa tök á að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Eins munu kennarar nýta fjölmörg tækifæri sem gefast næsta mánuðinn til þess að færa kennsluna út fyrir veggi skólans og þá með tilheyrandi hreyfistundum. Eftir  kynningu á sal tóku þau Guðjón Örn (10.b) og Maja (1.b) að sér að draga fána Heilsueflandi skóla að húni. Að því búnu var haldið á Syngjandann sem er útikennslustofa Víkurskóla þar sem þau Katrín og Adam íþróttakennarar skólans skipulögðu skemmtilega leiki fyrir allan hópinn.

 

Vettvangsferð að Hjörleifshöfða

Nemendur í 1.-6. bekk héldu í dag í vettvangsferð að Hjörleifshöfða sem að var hluti af verkefni sem unnið er að í Drangamixi í Víkurskóla. Þess má geta að nánast allir nemendur hópsins gengu upp að haugnum sem að Hjörleifur landsnámsmaður er talinn grafinn og skein gleði úr hverju andliti. Veðrið lék við okkur og sáu nemendur sjálfir um myndatökur á meðfylgjandi myndum.

Skólaslit Víkurskóla

Víkurskóla var slitið við hátíðalega athöfn föstudaginn 28. maí s.l. Að þessu sinni voru sex nemendur útskrifaðir úr 10. bekk og 7 nemendur úr forskóladeild. Við sendum þeim okkar bestu framtíðaróskir. Fyrir hönd skólans sendi ég nemendum, foreldrum og starfsfólki bestu sumarkveðjur. Jafnframt sendi ég samstarfsaðilum og velunnurum Víkurskóla kærar kveðjur með þakklæti fyrir samstarfið á skólaárinu.

Skólastjóri

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is