Ólympíuhlaup ÍSÍ 2025 – Víkurskóli reið á vaðið 2. september
Það var sannur heiður fyrir Víkurskóla að vera falið það hlutverk af hálfu Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands að opna viðburðinn Ólympíuhlaup ÍSÍ 2025 og vera fámennasti skólinn hingað til sem hefur tekið þetta verkefni að sér. Hlaupið fór fram nú í morgun við bestu mögulega aðstæður, stillt og hlýtt veður. Allir árgangar skólans og starfsmenn tóku þátt og hlupu ýmist 2.5 km, 5 km eða 10 km. Alls hlupu 9 nemendur lengstu vegalengdina sem er met hjá okkur. Hlaupið hófst á táknrænni athöfn á sal skólans þar sem yngsti og elsti nemandi skólans þau Bergrós Anna og Óliver Ísar, fengu afhentan fána Heilsueflandi skóla til þess að draga að húni við skólann. Að því loknu var upphitun við skólann og svo var gengið sem leið lá austur fyrir tjaldstæðið í Vík þar sem hlaupið var ræst formlega af lukkudýri ÍSÍ sem ber heitð Blossi. Af þessu tilefni færði Ragnhildur Skúladóttir hjá ÍSÍ skólanum að gjöf bolta, sippubönd og fleira fyrir nemendur að nýta í frímínútum og íþróttum og svo fengu allir nemendur kókómjólk frá MS þegar komið var í mark. Eftir hádegishlé fengu nemendur í unglingadeild fyrirlestur frá Birgi, sem starfar hjá Lyfjaeftirliti Íslands, um orkudrykki, skjánotkun og sjálfsmynd.
Takk fyrir Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og takk fyrir komuna í Víkurskóla.