Þorrablót Víkurskóla
Ein af rótgrónum hefðum Víkurskóla er að halda þorrablót þar sem nemendur og starfsmenn gera sér glaðan dag saman. Krakkarnir í 0.-4. bekk hófu daginn á því að útbúa skemmtilega víkingahjálma og nemendur í 3.-4. bekk lærðu að skrifa nafnið sitt með rúnum og sumir skreyttu sína hjálma þannig. Nemendur í 9.-10. bekk lögðu á borð fyrir þorramatinn en það var sameiginlegt borðhald fyrir alla í matstofu skólans. Krakkarnir voru dugleg að smakka og hákarlinn er að verða vinsælli! Að afloknu borðhaldi komu allir saman á sal og sungu skemmtileg lög sem áttu við tilefnið. Þar á meðal þorralag Víkurskóla. Nemendaráð Víkurskóla flutti annál ársins sem settur var saman úr þeim viðburðum sem þeim þóttu merkilegust á árinu. Að því búnu var tekið til við spilamennsku. Nemendur í 5.-10. bekk spiluðu félagsvist og nemendur í 1.-4. bekk spiluðu Ólsen-Ólsen. Forskólanemendur fóru í frjálsan leik. Veitt voru verðlaun í hvorum flokki og það voru Þær Anastazja í 10. bekk og Gréta Björk í 4. bekk sem voru hlutskarpastar að þessu sinni. Sannarlega skemmtilegur og lærdómsríkur skóladagur.