Geðlestin í heimsókn í Víkurskóla.
Í dag fengum við heimsókn frá Geðlestinni en það er verkefni á vegum Geðhjálpar. Árið 2020 setti Geðhjálp fram 9 aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang og eitt af áherslumálunum var setja fræðslu til ungmenna í forgang. Heimsóknin miðaðist við unglingadeildina en allir voru svo boðnir á örtónleika með Emmsjé Gauta og það var mikið fjör.
Hér er kynningartexti um þetta frábæra verkefni:
Markmiðið með Geðlestinni er að ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Lífið býður upp á allskonar áskoranir og stundum þurfum við að leita okkur aðstoðar við verkefni lífsins. Það er eðlilegasti hlutur í heimi að biðja um hjálp. Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra/aðstandendur eða kennara um það sem gengur á í amstri dagsins.
Það er mikilvægt að læra að stundum er lífið leiðinlegt og erfitt og það þurfi ekki alltaf að þýða eitthvað alvarlegt eða slæmt. Mótvindur verður skyndilega meðvindur og engin brekka er endalaus.
Það á að vera jafn eðlilegt að huga að geðheilsu sinni eins og líkamlegri heilsu. Það er hægt að gera með því að koma sér upp heilbrigðum venjum, líkt og að iðka þakklæti, eiga sér áhugamál, hreyfa sig, borða hollt, fá nægan svefn, treysta, eiga góða vini, rækta með sér seiglu og þrautseigju, vera umburðarlynd(ur), hjálpa öðrum, sýna tillitssemi, tjá sig svo fátt eitt sé nefnt.