Jóladagskrá Víkurskóla

Hér er yfirlit yfir það helsta sem er á döfinni fram að jólaleyfi nemenda.

Jóladagskrá 2020

Dagur íslenskrar tungu – kaffihúskvöld Víkurskóla

Víkurskóli heldur upp á Dag íslenskrar tungu með  árlegu kaffihúskvöldi, að þessu sinni 17. nóvember sl. Það var afar ánægjulegt að sjá hversu margir komu á þennan árlega viðburð sem við höfum þurft að fella niður sl tvö ár. Nemendur sáu um að baka, skreyta og raða upp með starfsmönnum skólans. Nemendur í 3.-6. bekk lásu upp ljóð og nemendur í forskóla og 1.-6. bekk sungu. Aðalgestur kvölsins var rithöfundurinn og ljóðskáldið góðkunna Gerður Kristný. Í alla staði vel heppnaður viðburður.

Vígsla hreystibrautar við Víkurskóla

Þann 9. nóvember var hreystibraut formlega vígð við Víkurskóla, rétt rúmu ári eftir að hugmyndin kviknaði. Margir lögðu verkefninu lið með fjárstuðningi og fyrir það er skólinn mjög þakklátur sem og sveitarfélaginu fyrir að gera verkefnið að veruleika. Andrés Guðmundsson skólahreystifrömuður og hönnuður brautarinnar kynnti brautina og Einar Freyr sveitarstjóri flutti stutt ávarp. Það voru svo Björn Vignir Ingason formaður nemendafélags Víkurskóla og Björn Þór Ólafsson oddviti sveitarstjórnar sem klipptu á borðann. Sannarlega góð viðbót við íþróttamannvirki og afþreyingaraðstöðu í sveitarfélaginu. Hreystibrautin mun að sjálfsögðu nýtast öllum í samfélaginu. Það er jafnframt gaman að segja frá því að þetta er fyrsta hreystibrautin sem sett er upp á Suðurlandi.

Ólympíuhlaupið 2022.

Eins og hefð er fyrir þá taka nemendur þátt í hvatningarverkefni ÍSÍ, Ólympíuhlaupinu. Að þessu sinni lék veðrið við okkur nánast logn og heiður himinn.  Katrín íþróttakennari sá um upphitun fyrir hlaupið sem vakti lukku. Allir nemendur og starfsmenn tóku þátt í hlaupinu og stóðu sig með sóma. Krakkarnir máttu velja um 3 vegalengdir; 2,5 km, 5 km og 10 km. Að þessu sinni ákváðu óvenju margir nemendur að hlaupa 10 km. Frábær útivist og samvera.

Heimsókn frá Heimili og skóla.

Fimmtudaginn 21. september komu þær Bryndís Jónsdóttir og Eyrún Eva Haraldsdóttir sérfræðingar samtakanna Heimilis og skóla til okkar í Víkurskóla. Þær voru með fræðslu fyrir nemendur í 5.-10. bekk, og alla starfsmenn.  Síðdegis var fræðslufundur fyrir foreldra og var hann mjög vel sóttur. Þær stöllur fræddu um ábyrga notkun á netinu og hvað ber að varast þar og fóru vel yfir mikilvægi öflugs og góðs foreldrasamstarfs. Stjórn foreldrafélagsins sá um veitingar. Afskaplega vel heppnuð heimsókn en þessi viðburður er samstarfsverkefni Skólaráðs og Foreldrafélags Víkurskóla.

Göngum í skólann.

Hvatningarverkefnið ,,Göngum í skólann’’ hófst í dag 7. september. Víkurskóli tekur að sjálfsögðu þátt enda verkefnið hluti af stefnu skólans sem Heilsueflandi skóla. Nemendur og starfsmenn hittust á sal eftir hádegismatinn þar sem verkefnið var kynnt. Að því búnu tóku yngsti og elsti nemandi skólans, þeir Óskar Freyr og Eyjólfur Lárus að sér að draga fána Heilsueflandi skóla að húni. Þegar því var lokið fóru allir nemendur í 1.-10. bekk í skemmtilegan ratleik á skólalóðinni. Það má því segja að allir hafa fengið góða hreyfingu í fínu veðri. Verkefnið mun halda áfram næsta mánuðinn og hreyfing verður eins og alltaf í forgrunni.

Haustferð í berjamó.

Nemendur í 1.-10. bekk ásamt starfsmönnum og kennurum fóru í árlega haustferð í dag, mánudaginn 5. september. Farið var í berjamó á Péturseyjaraura og var berjasprettan mjög fín og flestir komu heim með ber í dós. Veðrið var upp á það allra besta, blíðuveður og 19 stiga hiti. Við þökkum bændum í Eystri-Pétursey fyrir berjatínsluleyfið.

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is