Rannsóknarverkefni í Víkurskóla – Katla jarðvangur.

Katla jarðvangur og Víkurskóli, í samstarfi við Kötlusetur í Vík, hófu rannsóknarverkefni fyrir nemendur í Víkurskóla þann 12. janúar 2021. Verkefnið gengur út á að rannsaka strandlínu- og fjörubreytingar í Víkurfjöru á næstu árum.

Verkefnið felur í sér að nemendur í 5.-10. bekk mæla upp 6 snið í Víkurfjöru ásamt því að mæla kornastærðirnar á sandinum þar og taka ljósmyndir af formgerðunum í fjörunni. Yngstu nemendur skólans 1. -4.  bekkur munu síðan stunda sjálfstæðar rannsóknir á sandinum í Víkurfjöru, dýralífinu sem þar er að finna og rannsaka rusl sem skolast þar á land.

Stefnt er að því að nemendur mæli sniðin fjórum sinnum á ári, á vorin, seinni part sumars, haustin og um veturinn, til að fá sem besta mynd á það hvernig fjaran breytist á milli árstíða. Þá er fjörukamburinn einnig mældur til að athuga hvort það mikla landbrot sem hefur átt sér stað við Vík sé enn í gangi. Með mælingu sniðanna má sjá hvort að fjaran sé að byggjast upp eða ekki, ásamt því að reikna út u.þ.b. rúmmálið sem hefur annað hvort bæst við fjöruna eða verið fjarlægt þaðan. Athuganir á kornastærðinni í fjörunni og formgerðunum munu síðan gefa hugmyndir um orkustig strandarinnar og er kjörið tækifæri til að fræða nemendur um hið síbreytilega landslag fjara og hver áhrif loftlagsbreytinga hafa á strandsvæði.

Markmiðin með rannsóknarverkefninu eru að nemendur kynnist því hvernig sé staðið að vísindalegum rannsóknum og fái að taka þátt í þeim, svo sem mælinga, söfnun upplýsinga og úrvinnslu gagna, en slík reynsla mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni. Einnig að verkefnið muni auka skilning nemenda á strandumhverfum, sérstaklega sandfjörum, og hvað það er sem veldur breytingum á þeim, svo sem landrofi og vexti.

Stefnt er að því að birta niðurstöðu mælinganna einu sinni á ári og er áætlað að þær verði til sýnis í sjóminjasafninu Hafnleysu við Kötlusetur.

Það er Jóhannes Marteinn Jóhannesson jarðfræðingur hjá Kötlu jarðvangi sem stýrir verkefninu fyrir hönd Kötlu Jarðvangs í samstarfi við Kolbrúnu Hjörleifsdóttur verkefnastjóra Geo-skóla Víkurskóla. Auk þess munu allir nemendur Víkurskóla taka þátt og flest allir starfsmenn  koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti.

Víkurskóli hefur verið einn af Geo-skólum Kötlu UNESCO Global Geopark frá árinu 2017. Árlega vinna nemendur fjölbreytt verkefni í því augnamiði að tileinka sér og vinna með einkenni, sögu og jarðfræði nærumhverfisins til að efla umhverfisvitund og umhverfislæsi nemenda.

 

Fleiri myndir.

0 replies

Leave a Reply

Want to join the discussion?
Feel free to contribute!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is