Gleðigjafar heimsóttu íbúa Hjallatúns.

Krakkarnir í 1.-4. bekk fóru í veðurblíðunni núna í maí í heimsókn til íbúa á Hjallatúni og sungu fyrir þá ýmis falleg vorlög undir stjórn Margrétar Steinunnar Guðjónsdóttur. Heimsóknir barna í Víkurskóla m.a. á Hjallatún eru fastur liður í skólastarfinu og hafa þann tilgang að gleðja aðra og styrkja böndin við nærsamfélagið. Eins og alltaf var tekið afar vel á móti krökkunum og þau voru leyst út með veitingum.

Víkurskóli tók þátt í Skólahreysti 2021.

Víkurskóli tók þátt í Skólahreysti á ný eftir 3 ára hlé. Keppendur Víkurskóla voru þau Egill Atlason, Arnfríður Mára Þráinsdóttir, Auðunn Adam Vigfússon og Urður Ósk Árnadóttir. Varmenn voru klárir, þau Karl Anders Þórólfur Karlsson og Jóhanna Ellen Einarsdóttir. Liðstjórar voru þær Daria Borkowska og Victoria Reinholdsdóttir. Þetta var í 7. skipti sem skólinn tekur þátt í þessari frábæru keppni. Krakkarnir hafa stundað æfingar af kappi í allan vetur, þau stóðu sig vel og slógu skólamet í dýfum og hreystigreip. Að þessu sinni var ekki í boði að senda stuðningsmannalið með en keppnin var í beinni útsendingu og mikill spenningur var hjá samnemendum og fjölskyldum krakkana að fylgjast með. Eitt af markmiðum heilsustefnu Víkurskóla er að skólinn taki þátt í þessu viðburði.

Skólahreystilið Víkurskóla 2021!

Ganga á Reynisfjall.

1. og 2. bekkur gekk í dag frá Víkurskóla yfir Reynisfjall og að sveitabænum Reyni. Þetta var skemmtileg ganga með fullt af áskorunum. Það er á brattann að sækja þegar lagt er af stað en þegar upp er komið þá er útsýnið svo fallegt að allir þreyttir vöðvar endurnýja orku sína. Við stoppuðum við Reyniskirkju og sáum þar fuglshreiður sem þurfti að gæta vel að. Þar heyrðu nemendur einnig söguna um Kirkjusmiðinn á Reyn en eftir sögustund gengum við áfram að Reyni og fengum þar drykk, skúffuköku og ávexti. Við þökkum þeim Bergþóru og Ólafi fyrir góðar móttökur. Skólabíllinn sótti okkur svo og keyrði til baka. Fullkomin ferð í vorblíðunni.

Listasýning 3.-4. bekkjar.

Krakkarnir í 3.-4. bekk unnu skemmtilegt samþætt verkefni í listum og náttúrufræði undir stjórn Kolbrúnar Hjörleifsdóttur. Krakkarnir útbjuggu fugla, sömdu vorljóð og ræktuðu blóm sem þau gróðursettu í blómapottum sem þau útbjuggu sjálf. Krakkarnir settu svo upp listasýningu á sal og buðu gestum að koma á opnunina. Sannarlega skemmtilegt verkefni hjá krökkunum.

Listatími hjá 1. bekk og verðandi 1. bekkingum.

Listatími hjá 1. bekk og verðandi 1. bekkingum. Viðfangsefnið er sol og skuggar. Grunnformin og bjartir litir. Ungu listamennirnir nutu sín í goða veðrinu.

1. og 2. bekkur í heimsókn í sauðburð á bæinn Ketilsstaði.

Þann 29. apríl síðastliðin fóru 1. og 2. bekkur í heimsókn í sauðburð á bæinn Ketilsstaði. Staðarhaldarar buðu okkur velkomin og fylgdu okkur í fjárhúsin þar sem sauðburður var í fullum gangi. Eftir fjárhúsheimsókn fórum við í göngutúr upp að Oddnýjartjörn. Þar var gaman að vaða og skemmtilegir skrækir heyrðust langar leiðir. Eftir að hafa vaðið og fundið allskonar dýrðgripi við vatnið var nestinu gerð góð skil. Því næst gengum við til baka en fórum þó aðra leið og komum niður á bænum Hvammbóli. Á heimleiðinni gengum við fram á Laugastein og þar sagði Salóme Þóra okkur sanna sögu sem tengist nafni steinsins. Við þökkum staðarhöldurum á Hvammbóli og Ketilsstöðum kærlega fyrir móttökurnar.

Útilistaverkagerð hjá 1.-2. bekk

Í vorblíðunni nýtum við hvert tækifæri til að fara með börnin út í náttúruna og nærumhverfið. Hér eru myndir frá nemendum í 1.-2. bekk sem fóru í Víkurfjöru og útbjuggu listaverk úr efnivið sem þau fundu í fjörunni. Útkoman var glæsileg og undu nemendur sér vel og unnu sérstaklega  vel saman.

Stóra-upplestrarkeppnin 2021

Héraðskeppni Stóru-upplestrarkeppninnar fór fram á Hvolsvelli 27. apríl sl.  Að þessu sinni var keppnin með öðru sniði vegna sóttvarnareglna. Engir gestir gátu sótt keppnina og heildarfjöldi í sal var einungis 20 manns. Keppendur Víkurskóla voru þeir Guðjón Örn Guðmundsson og Johan Olof Ísólfur Karlsson nemendur í 7. bekk. Þeir stóðu sig með sóma. Hér fylgja myndir og upptökur frá keppninni. Þjálfari liðs Víkurskóla var Margrét Steinunn Guðjónsdóttir.

 

Stærðfræðifjör 3. – 7. bekkur.

Það var gleði og gaman hjá nemendum í stærðfræðifjöri í dag þegar þau fengu það verkefni að hanna sandkastala í fjörunni í sól og fallegu veðri. Það er kúnst að móta listaverk úr sandi og þarf oft mikla útsjónarsemi og samvinnu til að ákveða hvernig eigi að skapa listaverkið. Öll leystu þau verkefnið framúrskarandi vel og skemmtu sér konunglega við vinnuna. Þau gátu valið um hvort kastalinn lenti í flokki frumlegasti kastalinn, vandaðasti kastalinn eða fyndnasti kastalinn og var fjölbreytnin því mikil í sköpunarverkinu.

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is