Stóra-upplestrarkeppnin 2021

Héraðskeppni Stóru-upplestrarkeppninnar fór fram á Hvolsvelli 27. apríl sl.  Að þessu sinni var keppnin með öðru sniði vegna sóttvarnareglna. Engir gestir gátu sótt keppnina og heildarfjöldi í sal var einungis 20 manns. Keppendur Víkurskóla voru þeir Guðjón Örn Guðmundsson og Johan Olof Ísólfur Karlsson nemendur í 7. bekk. Þeir stóðu sig með sóma. Hér fylgja myndir og upptökur frá keppninni. Þjálfari liðs Víkurskóla var Margrét Steinunn Guðjónsdóttir.

 

Stærðfræðifjör 3. – 7. bekkur.

Það var gleði og gaman hjá nemendum í stærðfræðifjöri í dag þegar þau fengu það verkefni að hanna sandkastala í fjörunni í sól og fallegu veðri. Það er kúnst að móta listaverk úr sandi og þarf oft mikla útsjónarsemi og samvinnu til að ákveða hvernig eigi að skapa listaverkið. Öll leystu þau verkefnið framúrskarandi vel og skemmtu sér konunglega við vinnuna. Þau gátu valið um hvort kastalinn lenti í flokki frumlegasti kastalinn, vandaðasti kastalinn eða fyndnasti kastalinn og var fjölbreytnin því mikil í sköpunarverkinu.

Heimsókn miðstigs á leikskólann Mánaland

Nemendur í 5.-7. unnu skemmtilegt verkefni í íslensku þar sem þau sköpuðu persónur og bjuggu til sögur í kringum þær. Þau myndskreyttu sögurnar og fóru í heimsókn á Leikskólann Mánaland og lásu upp fyrir eldri nemendur þar. Ánægjulegt og árangursríkt verkefni fyrir báða hópa.

 

Vinningshafi í Víkurskóla

Hún Hafdís Hanna nemandi í 3. bekk var svo heppin að vera dregin út í eldvarnargetraun Eldvarnaátaks 2020 hjá Landssambandi slökkviliða. Hún fékk að launum heimsókn í skólann frá slökkviliði Mýrdalshrepps og  jafnframt viðurkenningaskjal og gjafabréf hjá spilavinum upp á 10.000,-.

Til hamingju Hafdís Hanna!

Skíðaferð

Þriðjudaginn 9. febrúar skelltum við okkur á skíði í Bláfjöll með nemendur í 7.-10. bekk. Veðrið lék við okkur og nemendur og starfsmenn skemmtu sér konunglega og áttu góðan dag saman. Á heimleið stoppuðum við á Skalla á Selfossi og borðuðum saman.
Frábær dagur í alla staði og við erum strax farin að hlakka til næstu ferðar.

Þorrablót Víkurskóla 2021

Árlegt þorrablót fór fram í dag. Blótið er einn af föstum liðum skólastarfsins og haldið er fast í hefðir á þessum degi. Nemendur 10. bekkjar tóku að sér að leggja á borð fyrir blótið og gerðu það með glæsibrag. Þegar allir höfðu fengið sér góðan skammt af þorramat þá var flutt dagskrá á sal. Nemendur sungu hefðbundin þjóðleg lög við undirleik Brians Haroldssonar tónskólastjóra. Nemendaráð flutti annál ársins þar sem rifjaðir voru upp viðburðir síðasta árs í skólanum. Engum til furðu var Covid oft nefnt til sögunnar. Þá var tekið til við spil, nemendur í 5.-10. bekk spiluðu félagsvist og nemendur í 1. -4. bekk spiluðu Ólsen, Ólsen. Að aflokinni spilakeppninni var slegið upp balli á sal. Sigurvegarar í spilakeppninni voru Þau Alexandra Hrönn Ágústsdóttir í 1.bekk og Björn Vignir Ingason í 9. bekk. Virkilega vel heppnaður dagur.

 

Fleiri myndir.

Heimsókn frá lögreglunni.

Við fengum heimsókn frá lögreglunni í dag. Nemendur í öllum bekkjum fengu fræðslu um ýmislegt sem tengist umferðaröryggi einkum gangandi vegfarenda. Einnig var farið yfir reglur varðandi rafhlaupahjól. Við þökkum Söru Lind lögregluþjóni kærlega fyrir heimsóknina.

Rannsóknarverkefni í Víkurskóla – Katla jarðvangur.

Katla jarðvangur og Víkurskóli, í samstarfi við Kötlusetur í Vík, hófu rannsóknarverkefni fyrir nemendur í Víkurskóla þann 12. janúar 2021. Verkefnið gengur út á að rannsaka strandlínu- og fjörubreytingar í Víkurfjöru á næstu árum.

Verkefnið felur í sér að nemendur í 5.-10. bekk mæla upp 6 snið í Víkurfjöru ásamt því að mæla kornastærðirnar á sandinum þar og taka ljósmyndir af formgerðunum í fjörunni. Yngstu nemendur skólans 1. -4.  bekkur munu síðan stunda sjálfstæðar rannsóknir á sandinum í Víkurfjöru, dýralífinu sem þar er að finna og rannsaka rusl sem skolast þar á land.

Stefnt er að því að nemendur mæli sniðin fjórum sinnum á ári, á vorin, seinni part sumars, haustin og um veturinn, til að fá sem besta mynd á það hvernig fjaran breytist á milli árstíða. Þá er fjörukamburinn einnig mældur til að athuga hvort það mikla landbrot sem hefur átt sér stað við Vík sé enn í gangi. Með mælingu sniðanna má sjá hvort að fjaran sé að byggjast upp eða ekki, ásamt því að reikna út u.þ.b. rúmmálið sem hefur annað hvort bæst við fjöruna eða verið fjarlægt þaðan. Athuganir á kornastærðinni í fjörunni og formgerðunum munu síðan gefa hugmyndir um orkustig strandarinnar og er kjörið tækifæri til að fræða nemendur um hið síbreytilega landslag fjara og hver áhrif loftlagsbreytinga hafa á strandsvæði.

Markmiðin með rannsóknarverkefninu eru að nemendur kynnist því hvernig sé staðið að vísindalegum rannsóknum og fái að taka þátt í þeim, svo sem mælinga, söfnun upplýsinga og úrvinnslu gagna, en slík reynsla mun vonandi nýtast þeim vel í framtíðinni. Einnig að verkefnið muni auka skilning nemenda á strandumhverfum, sérstaklega sandfjörum, og hvað það er sem veldur breytingum á þeim, svo sem landrofi og vexti.

Stefnt er að því að birta niðurstöðu mælinganna einu sinni á ári og er áætlað að þær verði til sýnis í sjóminjasafninu Hafnleysu við Kötlusetur.

Það er Jóhannes Marteinn Jóhannesson jarðfræðingur hjá Kötlu jarðvangi sem stýrir verkefninu fyrir hönd Kötlu Jarðvangs í samstarfi við Kolbrúnu Hjörleifsdóttur verkefnastjóra Geo-skóla Víkurskóla. Auk þess munu allir nemendur Víkurskóla taka þátt og flest allir starfsmenn  koma að verkefninu með einum eða öðrum hætti.

Víkurskóli hefur verið einn af Geo-skólum Kötlu UNESCO Global Geopark frá árinu 2017. Árlega vinna nemendur fjölbreytt verkefni í því augnamiði að tileinka sér og vinna með einkenni, sögu og jarðfræði nærumhverfisins til að efla umhverfisvitund og umhverfislæsi nemenda.

 

Fleiri myndir.

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is