Sigrúnarstund í Víkurskóla á fullveldisdaginn 1. desember.

Í tilefni af 100 ára ártíð Sigrúnar Jónsdóttur kirkjulistakonu sem var fædd og uppalinn í Vík var haldin stutt dagskrá og listasýning þann 1. desember sl. Viðburðurinn var samstarfsverkefni Kötluseturs og Víkurskóla. Nemendur í 3.-6. bekk heimsóttu Kötlusetur á haustdögum þar sem Harpa Elín forstöðukona tók á móti þeim og fræddi þau um Sigrúnu og hennar merkilega lífshlaup og listamannsferil. Kötlusetur heldur jafnframt utan um sýningu á verkum Sigrúnar auk fiski-og fraktskipsins Skaftfellings sem Sigrún stóð fyrir að flytja til Víkur og bjarga honum frá endanlegri eyðileggingu. Í kjölfarið á fræðslunni sem nemendur fengu í Kötlusetri unnu nemendur verk undir leiðsögn Kolbrúnar Hjörleifsdóttur listakennara innblásinn af verkum Sigrúnar. Á viðburðinum voru verk nemenda til sýnis auk listaverka Sigrúnar sem fengin voru að láni. Harpa Elín og Kolbrún stýrðu stundinni og sögðu frá Sigrúnu. Í lokin sungu allir saman. Til stóð að viðburðurinn yrði stærri í sniðum og opin öllum en slíkt var ekki hægt vegna samkomutakmarkanna. Viðburðurinn var afar vel heppnaður og dæmi um farsælt samstarf skólans við Kötlusetur. Verkefnið hefur jafnframt skírskotun til Kötlu Unesco jarðvangs þar sem skólinn er einn af Geo-skólum jarðvangsins og hefur um leið, m.a. það hlutverk að miðla menningu og sögu til nemenda.

Sigrún Jónsdóttir fæddist í Vík í Mýrdal 19. ágúst 1921. Hún ólst upp í Vík í Mýrdal sem mótaði hana og þar hafði hún alltaf sínar sterku rætur.  Sigrún lauk námi frá Kvennaskólanum og síðar Kennaraskóla Íslands.  Sigrún nam síðar list í Danmörku, Svíþjóð og víðar. Sigrún helgaði sig listinni og varð ein fremsta kirkjulistakona Norðurlanda.  Hún átti alltaf sterkar taugar til sinnar heimabyggðar í Vík og ræddi oft hversu uppvaxtarárin hefðu mótað sitt líf mikið.

 

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is