Sendiherra Bretlands í heimsókn í Víkurskóla

Við fengum góða gesti í heimsókn þann 9. febrúar sl þegar sendiherra Bretlands, Frú Bryony Mathew kom ásamt föruneyti. Sendiráðið gaf út barnabók nýlega sem sendiherrann skrifaði ásamt starfsfólki sendiráðsins en bókin er á íslensku og fjallar um starfstækifæri framtíðarinnar, sérstaklega þegar kemur að tækni- og vísindastörfum. Sendiherran færði Víkurskóla nokkur eintök af bókinni ásamt því að nemendur fengu bókamerki og upplýsingar til að finna bókina í heild sinni á netinu. Krakkarnir fengu kynningu á bókinnni og jafnframt svöruðu þau stuttum spurningalista þar sem þau skoðuðu sína styrkleika og hvað þau hafa áhuga á að vinna við í framtíðinni.

Krakkarnir voru mjög áhugsöm og sendiherran hafði orð á því hvað okkar börn væru mikið að velta því fyrir sér hvað þau yrðu í framtíðinni og ekki síst hversu margir nefndu mörg mismunandi störf og hlutverk sem þau myndu vilja sinna.

Víkurskóla þakkar sendiherranum fyrir þessa frábæru heimsókn og velvild í garð skólans.

Heimsókn frá Tónskólanum

Við fengum heimsókn frá Tónskólanum nú fyrir stuttu þar sem þau Teresa og Zbigniew kynntu fyrir nemendum úrval af hljóðfærum sem tónskólinn á. Mjög gaman fyrir krakkana að sjá hvaða möguleikar eru í boði og vonandi fá þau aftur kynningu í haust þegar nýtt starfsár hefst.

Þorrablót Víkurskóla

Ein af rótgrónum hefðum Víkurskóla er að halda þorrablót þar sem nemendur og starfsmenn gera sér glaðan dag saman. Krakkarnir í 0.-4. bekk hófu daginn á því að útbúa skemmtilega víkingahjálma og nemendur í 3.-4. bekk lærðu að skrifa nafnið sitt með rúnum og sumir skreyttu sína hjálma þannig. Nemendur í 9.-10. bekk lögðu á borð fyrir þorramatinn en það var sameiginlegt borðhald fyrir alla í matstofu skólans. Krakkarnir voru dugleg að smakka og hákarlinn er að verða vinsælli! Að afloknu borðhaldi komu allir saman á sal og sungu skemmtileg lög sem áttu við tilefnið. Þar á meðal þorralag Víkurskóla. Nemendaráð Víkurskóla flutti annál ársins sem settur var saman úr þeim viðburðum sem þeim þóttu merkilegust á árinu. Að því búnu var tekið til við spilamennsku. Nemendur í 5.-10. bekk spiluðu félagsvist og nemendur í 1.-4. bekk spiluðu Ólsen-Ólsen. Forskólanemendur fóru í frjálsan leik. Veitt voru verðlaun í hvorum flokki og það voru Þær Anastazja í 10. bekk og Gréta Björk í 4. bekk sem voru hlutskarpastar að þessu sinni. Sannarlega skemmtilegur og lærdómsríkur skóladagur.

Dans

Jón Pétur Úlfljótsson danskennarinn okkar kom í annað sinn á skólaárinu nú í janúar. Danskennslan er alltaf vel þegið uppbrot í skólastarfið og partur af námi barna samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla. Að þessu sinni kenndi Jón Pétur krökkunum að búa til sinn eigin dans og það var vinsælt. Námskeiðinu lauk með opinni æfingu þar sem foreldrar og forráðamenn fjölmenntu að vanda.

Heimsókn á Hjallatún

Nemendur í 1.-6.bekk Víkurskóla heimsóttu Hjallatún nú á aðventunni og sungu fyrir þau jólalög. Brian spilaði undir fyrir okkur og nutum við stundarinnar og veitinganna sem okkur voru boðnar eftir sönginn.

Íþróttadagur Víkurskóla

Skemmtileg hefð að brjóta upp skólastarfið og efla heilsuhliðina. Nemendur unnu á stöðvum 20 mínútur í senn og brosið skein af hverju andliti. Myndirnar tala sínu máli.

Strandmælingar í Víkurfjöru

Mánudaginn 5. desember fóru nemendur í 9. og 10. bekk í Víkurfjöru í strandmælingar. Þau tóku ljósmyndir í fjörunni, tóku loftmyndir með dróna og mældu hvert snið í fjörunni.

Þetta er í fyrsta skipti sem mælingar af þessari gerð hafa verið gerðar á Íslandi. Því mætti segja að Víkurskóli, ásamt Kötlu jarðvangi, sé að ryðja brautina fyrir framtíðarrannsóknir þar sem þessar mælingar munu hafa mikið vægi, t.d. við ákvarðanatöku um byggð við strandir landsins.

Nú er búið að gera nokkrar mælingar og strax má sjá samband milli vindáttar og rofs í fjörunni. Athyglisvert verður að fylgjast með niðurstöðum næstu ára.

Heimasíða verkefnisins er í vinnslu og verður birt innan skamms.

Rithöfundur í heimsókn 1. desember á fullveldisdegi Íslands.

Einn af liðum jóladagkrárinnar þetta árið var að fá Lilju Magnúsdóttur rithöfund sem búsett er á Kirkjubæjarklaustri í heimsókn. Lilja hefur nýlega gefið út barnabókina Gaddavír og gotterí sem hún las úr fyrir nemendur í 1.-6. bekk. Sannarlega ánægjuleg stund og við þökkum Lilju kærlega fyrir komuna.

 

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is