Göngum í skólann.

Hvatningarverkefnið ,,Göngum í skólann’’ hófst í dag 7. september. Víkurskóli tekur að sjálfsögðu þátt enda verkefnið hluti af stefnu skólans sem Heilsueflandi skóla. Nemendur og starfsmenn hittust á sal eftir hádegismatinn þar sem verkefnið var kynnt. Að því búnu tóku yngsti og elsti nemandi skólans, þeir Óskar Freyr og Eyjólfur Lárus að sér að draga fána Heilsueflandi skóla að húni. Þegar því var lokið fóru allir nemendur í 1.-10. bekk í skemmtilegan ratleik á skólalóðinni. Það má því segja að allir hafa fengið góða hreyfingu í fínu veðri. Verkefnið mun halda áfram næsta mánuðinn og hreyfing verður eins og alltaf í forgrunni.

Haustferð í berjamó.

Nemendur í 1.-10. bekk ásamt starfsmönnum og kennurum fóru í árlega haustferð í dag, mánudaginn 5. september. Farið var í berjamó á Péturseyjaraura og var berjasprettan mjög fín og flestir komu heim með ber í dós. Veðrið var upp á það allra besta, blíðuveður og 19 stiga hiti. Við þökkum bændum í Eystri-Pétursey fyrir berjatínsluleyfið.

Skólaslit Víkurskóla.

Skólaslit Víkurskóla fóru fram 30. maí sl. Þá útskrifðustu 7 nemendur úr 10 bekk. Þau stóðu sig öll með sóma og fengu viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Að venju fengu nemendur birkiplöntu að gjöf frá skólanum með hvatningu um að þau verði þrautseig í lífinu eins og birkið. Kvenfélögin í Mýrdal færðu útskriftarhópnum spjöld að gjöf sem geta nýst þeim vel þegar í framhaldssskólann og lífið er komið, því þau hafa að geyma leiðbeiningar um þvott á fatnaði, geymslu matvæla og mælingar. Kvenfélagskonum eru sendar bestu þakkir fyrir þessa hugulsemi við nemendur. Við óskum þessa öfluga hópi til hamingju með útskriftina og óskum þeim alls hins besta í framtíðinni.

Skólaferðalag til Vestmannaeyja.

Nemendur í 7. – 10. bekk fóru á dögunum í skólaferðalag til Vestmannaeyja. Lagt var af stað á mánudagsmorgni og gist í tvær nætur. Við vorum gríðarlega heppin með veður fyrri daginn en þrátt fyrir rigningu seinni daginn skemmtu allir sér konunglega.
Við fórum meðal annars í ratleik og ribsafari ásamt því að fara á rafmagnshjól, spranga og margt fleira.
Við heimkomu voru allir bæði þreyttir og glaðir eftir frábæra ferð.

 

Velunnari Víkurskóla kom í heimsókn í dag.

Eins og svo oft áður kom Guðný Guðnadóttir til okkar og færði nemendum peningagjöf annars vegar í ferðasjóð nemenda og hinsvegar í söfnun fyrir hreystibrautarverkefni Víkurskóla. Guðný hefur alltaf lagt áherslu á að tóbaksleysi og hvatt nemendur að vera reyklausir hún jafnframt lýsti ánægju sinni með þátttöku Víkurskóla í Skólahreysti. Það var Andri Berg Jóhannsson fulltrúi í nemendaráði Víkurskóla sem veitti þessum góðu gjöfum viðtöku. Kærar þakkir Guðný!

Geðlestin í heimsókn í Víkurskóla.

Í dag fengum við heimsókn frá Geðlestinni en það er verkefni á vegum Geðhjálpar. Árið 2020 setti Geðhjálp fram 9 aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang og eitt af áherslumálunum var setja fræðslu til ungmenna í forgang. Heimsóknin miðaðist við unglingadeildina en allir voru svo boðnir á örtónleika með Emmsjé Gauta og það var mikið fjör.

Hér er kynningartexti um þetta frábæra verkefni:

 

Markmiðið með Geðlestinni er að ræða við ungt fólk um geðheilsu og hvernig best sé að rækta hana og vernda. Lífið býður upp á allskonar áskoranir og stundum þurfum við að leita okkur aðstoðar við verkefni lífsins. Það er eðlilegasti hlutur í heimi að biðja um hjálp. Nemendur eru hvattir til þess að tjá tilfinningar sínar, spyrja spurninga og ræða við foreldra/aðstandendur eða kennara um það sem gengur á í amstri dagsins.

Það er mikilvægt að læra að stundum er lífið leiðinlegt og erfitt og það þurfi ekki alltaf að þýða eitthvað alvarlegt eða slæmt. Mótvindur verður skyndilega meðvindur og engin brekka er endalaus.

Það á að vera jafn eðlilegt að huga að geðheilsu sinni eins og líkamlegri heilsu. Það er hægt að gera með því að koma sér upp heilbrigðum venjum, líkt og að iðka þakklæti, eiga sér áhugamál, hreyfa sig, borða hollt, fá nægan svefn, treysta, eiga góða vini, rækta með sér seiglu og þrautseigju, vera umburðarlynd(ur), hjálpa öðrum, sýna tillitssemi, tjá sig svo fátt eitt sé nefnt.

Sinfóníuhljómsveit Suðurlands bauð nemendum á tónleika.

Þann 9. maí sl. fóru nemendur í 1.-6. bekk á tónleika hjá Sinfóníuhljómsveit Suðurlands. Tónleikarnir voru sameiginlegir með nemendum Kirkjubæjarskóla og fóru tónleikarnir fram í Kirkjuhvoli. Sannarlega frábært framtak og gaman að okkar nemendur fái að upplifa slíkan menningarviðburð og sjá sinfóníuhljómsveit á sviði. Dagskráin var að sjálfsögðu miðuð við aldur nemenda og í lokin sungu allir Á sprengisandi en það var einmitt ósk um að nemendur væru búnir að læra textann fyrir tónleikana. Það var blíðviðri þennan dag og eftir tónleikana bauð Gvendarkjör nemendum í ís. Kærar þakkir fyrir það.

Heimilsfang: Mánabraut 3 |  Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is

Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is