Íþróttadagur Víkurskóla
Skemmtileg hefð að brjóta upp skólastarfið og efla heilsuhliðina. Nemendur unnu á stöðvum 20 mínútur í senn og brosið skein af hverju andliti. Myndirnar tala sínu máli.
Mánudaginn 5. desember fóru nemendur í 9. og 10. bekk í Víkurfjöru í strandmælingar. Þau tóku ljósmyndir í fjörunni, tóku loftmyndir með dróna og mældu hvert snið í fjörunni.
Þetta er í fyrsta skipti sem mælingar af þessari gerð hafa verið gerðar á Íslandi. Því mætti segja að Víkurskóli, ásamt Kötlu jarðvangi, sé að ryðja brautina fyrir framtíðarrannsóknir þar sem þessar mælingar munu hafa mikið vægi, t.d. við ákvarðanatöku um byggð við strandir landsins.
Nú er búið að gera nokkrar mælingar og strax má sjá samband milli vindáttar og rofs í fjörunni. Athyglisvert verður að fylgjast með niðurstöðum næstu ára.
Heimasíða verkefnisins er í vinnslu og verður birt innan skamms.
Einn af liðum jóladagkrárinnar þetta árið var að fá Lilju Magnúsdóttur rithöfund sem búsett er á Kirkjubæjarklaustri í heimsókn. Lilja hefur nýlega gefið út barnabókina Gaddavír og gotterí sem hún las úr fyrir nemendur í 1.-6. bekk. Sannarlega ánægjuleg stund og við þökkum Lilju kærlega fyrir komuna.
Hér er yfirlit yfir það helsta sem er á döfinni fram að jólaleyfi nemenda.
Víkurskóli heldur upp á Dag íslenskrar tungu með árlegu kaffihúskvöldi, að þessu sinni 17. nóvember sl. Það var afar ánægjulegt að sjá hversu margir komu á þennan árlega viðburð sem við höfum þurft að fella niður sl tvö ár. Nemendur sáu um að baka, skreyta og raða upp með starfsmönnum skólans. Nemendur í 3.-6. bekk lásu upp ljóð og nemendur í forskóla og 1.-6. bekk sungu. Aðalgestur kvölsins var rithöfundurinn og ljóðskáldið góðkunna Gerður Kristný. Í alla staði vel heppnaður viðburður.
Þann 9. nóvember var hreystibraut formlega vígð við Víkurskóla, rétt rúmu ári eftir að hugmyndin kviknaði. Margir lögðu verkefninu lið með fjárstuðningi og fyrir það er skólinn mjög þakklátur sem og sveitarfélaginu fyrir að gera verkefnið að veruleika. Andrés Guðmundsson skólahreystifrömuður og hönnuður brautarinnar kynnti brautina og Einar Freyr sveitarstjóri flutti stutt ávarp. Það voru svo Björn Vignir Ingason formaður nemendafélags Víkurskóla og Björn Þór Ólafsson oddviti sveitarstjórnar sem klipptu á borðann. Sannarlega góð viðbót við íþróttamannvirki og afþreyingaraðstöðu í sveitarfélaginu. Hreystibrautin mun að sjálfsögðu nýtast öllum í samfélaginu. Það er jafnframt gaman að segja frá því að þetta er fyrsta hreystibrautin sem sett er upp á Suðurlandi.
Eins og hefð er fyrir þá taka nemendur þátt í hvatningarverkefni ÍSÍ, Ólympíuhlaupinu. Að þessu sinni lék veðrið við okkur nánast logn og heiður himinn. Katrín íþróttakennari sá um upphitun fyrir hlaupið sem vakti lukku. Allir nemendur og starfsmenn tóku þátt í hlaupinu og stóðu sig með sóma. Krakkarnir máttu velja um 3 vegalengdir; 2,5 km, 5 km og 10 km. Að þessu sinni ákváðu óvenju margir nemendur að hlaupa 10 km. Frábær útivist og samvera.
Fimmtudaginn 21. september komu þær Bryndís Jónsdóttir og Eyrún Eva Haraldsdóttir sérfræðingar samtakanna Heimilis og skóla til okkar í Víkurskóla. Þær voru með fræðslu fyrir nemendur í 5.-10. bekk, og alla starfsmenn. Síðdegis var fræðslufundur fyrir foreldra og var hann mjög vel sóttur. Þær stöllur fræddu um ábyrga notkun á netinu og hvað ber að varast þar og fóru vel yfir mikilvægi öflugs og góðs foreldrasamstarfs. Stjórn foreldrafélagsins sá um veitingar. Afskaplega vel heppnuð heimsókn en þessi viðburður er samstarfsverkefni Skólaráðs og Foreldrafélags Víkurskóla.
Heimilsfang: Mánabraut 3 | Pósthúmer: 870 Vík | Símanúmar: 487 1242 | Netfang: vikurskoli@vikurskoli.is
Tilkynningar um leyfi eða veikindi nemenda: 487-1242 eða á netfangið vikurskoli@vikurskoli.is