Nemendur í 9.-10. bekk fengu heimboð í Hvolsskóla á leiksýninguna ,,Góðan daginn faggi“. Fyrir sýningu voru nemendur boðnir í mat í Hvolsskóla og þaðan var haldið í Félagsheimilið Hvol.
Þetta er sýning sem upphaflega var sett upp í Þjóðleikhúsinu við mikið lof og hefur síðan farið víða um land sem farandssýning. Góðan daginn, faggi er eins manns heimildasöngleikur unnin upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar frá yngri árum. Höfundarnir eru hinsegin fólk sem öll ólust upp á landsbyggðinni, Bjarni Snæbjörnsson leikari frá Tálknafirði, Axel Ingi Árnason tónskáld úr Eyjafjarðarsveit og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri frá Hrísey. Í sköpunarferli sýningarinnar ræddu höfundar jafnframt við ótal hinsegin manneskjur og stóðu reglulega fyrir opnum leiklestrum og kynningum í tengslum við Hinsegin daga og í samstarfi við Samtökin ‘78.
Víkurskóli þakkar fyrir góðar mótttökur á Hvolsvelli.