Það hefur sannarlega verið áskorun að taka þátt í alþjóðasamstarfi á tímum Covid 19. Verkefnið sem Víkurskóli lagði af stað í haustið 2019 stoppaði í mars 2020. Nú á haustdögum var ákveðið að gera nýtt plan og það kom í okkar hlut að ríða á vaðið og taka á móti gestum nú fyrir skemmstu.
Samstarfsskólar Víkurskóla eru staðsettir í Þýskalandi, Póllandi, Kanaríeyjum, Grikklandi og Finnlandi. Allir gátu komið að undanskyldum Finnum sem ekki fengu fararleyfi. Alls taldi hópurinn 10 nemendur og 8 kennara. Víkurskóli undir stjórn Victoriu verkefnastjóra Erasmus+ setti upp metnðarfulla dagskrá þá daga sem gestirnir dvöldu hjá okkur. Við fengum Adam forstöðumann félagsmiðstöðvarinnar OZ og Evu Dögg í Garðakoti í lið með okkur og tóku þau m.a. að sér að vera með vinnusmiðju nemenda sem gekk út á að allir myndu skapa sína draumaveröld byggða á því sem hver og einn teldi mikilvægt fyrir sig sem einstakling. Victoria tengdi þessa vinnu jafnframt við hugmyndafræði Uppeldis til ábyrgðar sem skólinn hefur á sinni stefnuskrá. Hópurinn fór í styttri og lengri ferðir auk þess sem þau fóru á hraunsýninguna Lava Show. Margir greiddu götu okkar við heimsókn samstarfsskóla okkar. Kötlusetur lagði til fundarastöðu ásamt því að þær Harpa Elín forstöðumaður og Anna starfsmaður setursins kynntu starfsemina, Hótel Vík bauð góðan afslátt af gistingu, sömuleiðis fengu gestirnir góðan afslátt í Ice Wear, frían sundpassa hjá Íþróttamiðstöð Mýrdalshrepps og góðan afslátt hjá Lawa Show. Þá má ekki gleyma foreldrum og starfsmönnum sem lögðu til veitingar og aðstoðuðu á svo marga vegu.
Það var mjög gaman að sjá þrátt fyrir hvað heimsóknin var stutt hvað krakkarnir af þessum 5 þjóðernum náðu vel saman. Til upprifjunar þá heitir verkefnið,,Fit for life’’. Markmið þess er að gera nemendur betur meðvitaða um hvað það er sem stuðlar að hreysti sálar og líkama. Horft er til þátta eins og hreyfingar, næringar, sjálfsmyndar, félagsfærni og andlegrar líðan. Jafnframt gera skólarnir sér far um að draga fram það sem skiptir máli í þeirra menningu sem styrkir andlega vellíðan s.s. dans, tónlist, leiklist og útivist. Skólarnir munu skipta á milli sín margskonar verkefnavinnu sem tengist inn á þessa þætti.